Undarlegir útreikningar

það er ótrúlegt að hugsa til þess að þegar þú borgar af bankaláni þá greiðir þú verðtryggingu á afborgun og höfðstól en þegar þú geymir peningana þína hjá þessum ræningjastofnunum þá stendur ekki steinn yfir steini, þú tapar peningum. Bankastofnanir á Íslandi eru verst reknu fyrirbæri sem um getur. Ef sama aðferð væri notuð við innborganir á sparireikninga og notaðar eru við afborganir lána þá fengir þú greiddar verðbætur á innleggið frá síðasta innleggi. Af hverju í ósköpunum látum við fara svona með okkur?
mbl.is Eldri borgarar taka út peninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarasamningar

Þessi grein kom i Mogganum rétt áður en skrifað var undir samningana.

 

Samningar eru lausir. Alþýðan situr hljóð, ennþá, og bíður átekta meðan samningsaðilar karpa um hvaða laun við fáum næstu mánuði eða ár. Eftir því sem maður kemst næst er í raun búið að semja, samt er gengið frá samningaborðinu hvað eftir annað. Ástæðan er, ef eitthvað er að marka fjölmiðla, að Samtök Atvinnulífsins (SA) neita að skrifa undir vegna þess að Ríkisstjórn Íslands er að endurskipuleggja fiskveiðistjórnunarkerfið. Eina ferðina enn. Hvað kostar okkur Íslendinga þessar endalausu breytingar á þessu kerfi? Hversu mikið af arðinum okkar hverfur í hítina ef við erum endalaust að skipta út flotanum vegna duttlunga sitjandi stjórnar hverju sinni? Úr bátum í skip og þaðan í smábáta og togara. Aftur til baka í skip og þaðan í strandveiðibáta. Við erum búin að missa gríðarlega margar útgerðir í gjaldþrot í gegnum tíðina útaf þessu hringli. Það lendir á ríkissjóði og skattgreiðendum. Og nú stefnir í eina kollsteypuna enn. Það er til svo einföld lausn á kvótabraskvandræðum okkar en hún er 100% veiðiskylda og skiptikvótamarkaður, en það er nauðsin svo ekki séu allir að veiða allar tegundir. Kvóti sem útgerðarmaður nýtir ekki sjálfur, skilast inn og ríkissjóður fær tekjurnar af því að leigja hann út aftur. En ef stjórnin ætlar að taka kvótann af útgerðunum þá verður hún að greiða þeim fyrir vegna þess að þær útgerðir sem eru að veiða kvótann sinn í dag eru búnar að kaupan hann af öðrum á undanförnum árum. Þeir sem seldu eru svo búnir að byggja upp atvinnu einhvers staðar annars staðar. Einn og einn flatmagar á Spáni fyrir gróðann en það hefðu flestir t.d. stjórnmálamenn okkar gert líka við sömu aðstæður, þeir eru búnir að margsanna það.        

Vilhjálmur Egilsson, sem forustumaður SA, er kominn á hálann ís. Hann ætlar sér að stöðva þróun nýs fiskveiðistjórnunarkerfis með þvingunum og alþýðan í landinu á að gjalda fyrir. Þessi hugsunarháttur kemur ekki á óvart úr þessari átt. Þarna kemst ekkert að nema eigin vasi en þó er tregðan svo mikil að sá einfaldi raunveruleiki, hagur almennings er hagur fyrirtækjanna í landinu, kemst ekki að. Við erum oft kölluð neytendur, alþýðan. Það er vegna þess að við neytum vörunnar sem SA eru að framleiða, eða höndla með dags daglega. Til þess að við getum það verðum við að hafa mannsæmandi laun. Ef Vilhjálmur Egilsson, hins vegar, hefur svona brennandi áhuga á fiskveiðistjórnun þá er spurning hvort hann er á réttri hillu. Væri þá ekki LÍÚ betri starfsvettvangur fyrir hugðarefni hans.    

 ALÞÝÐUSAMBAND ÍSLANDS. Þar fer fyrir Gylfi Arnbjörnsson. Hann hefur það verk á höndum að semja við SA. Og eins og áður sagði er hann líklega búinn að því. Gott og vel. En af hverju ASÍ er ekki búið að setja fram þá kröfu á rikisvaldið að verðtrygging verði lögð niður á Íslandi. Betri kjarabót væri ekki hægt að færa alþýðu landsins. Verðtrygging er mesta eitur sem til er í íslensku hagkerfi fyrir alla á Íslandi nema örfáa fjármagnseigendur. En ég geng alltaf á sama vegginn, sjálfsagt sama vegg og Gylfi sjálfur, þegar ég hugsa þetta til enda. Gylfi Arnbjörnsson er sjálfur fjármagnseigandi. Ég ætla að skjóta hérna inn til áminningar nafninu á samtökunum sem Gylfi, veitir forstöðu. Alþýðusamband Íslands. Ekki „Fjármagnseigendasamband Íslands“. Stóri gallinn við ASÍ er að forstöðumaður þess er ekki kosinn af meðlimum alþýðunnar hér á fróni heldur af fámennri klíku sem gjaldgeng er á landsþing ASÍ hverju sinni.

VR samþykkti í vetur að styðja tillögur Hagsmunasamtaka Heimilanna (HH) um leiðréttingu skulda heimilanna, niðurfellingu verðtryggingar og setningu laga, sem tryggja að hagur alls fjármálakerfisins á Íslandi verði lág verðbólga. Það er gert með lögbindingu hámarksvaxta uppá 6% sem verður til þess að mismunur verðbólgu og vaxta verða tekjur fjármagnseigenda sem eru að stærstum hluta lífeyrissjóðir og bankar. Í dag er staðan þannig að þeir hagnast á verðbólgunni. Og alþýðan tapar. Fólkið sem Gylfi Arnbjörnsson á að vera að vinna fyrir. Ég er á þeirri skoðun að maður með eina og hálfa á mánuði er óhæfur til að semja um launakjör. Hann veit ekki hvað þarf til að draga fram lífið. Ég skora hér með á ASÍ að feta í fótspor VR og sýna tillögum HH stuðning í verki og taka þær upp í kjaraviðræðum við ríkið.

 


DV hafnar birtingu sjónarmiða HH

 

Fréttaritið DV hefur fjallað nokkuð mikið um Hagsmunasamtök heimilanna að undanförnu. Stjórn samtakanna fannst nokkuð á sig halla svo ákveðið var að rita grein sem segði frá sjónarmiðum samtakanna því þau hafa sem slík ekki fengið umfjöllun í blaðinu. Ingi F Vilhjálmsson, fréttastjóri DV var beðinn fyrir birtingu greinarinnar. Hann hafnaði birtingu alfarið á þeim grundvelli að það væri of seint og búið væri að ákveða að fara ekki eftir tillögum samtakanna um leiðréttingu íbúðalána. Eftirfarandi er greinin sem Hagsmunasamtök heimilanna óskuðu eftir birtingu á.

HVATNINGARPAKKI HEIMILANNA
Hagsmunasamtök heimilanna lögðu fram tillögur sínar um efnahagsaðgerð til leiðréttingar á skuldum heimilanna strax í janúar 2009. Núverandi tillögur að þjóðarsátt eru byggðar á þeim tillögum. Í grunninn hafa tillögurnar ekki breyst vegna þess að þær hafa staðist tímans tönn og í reynd hefur sýnt sig að varnaðarorð HH áttu við rök að styðjast. Megin markmið aðgerða eru tvö: Upprisa efnahagslífs og réttlæti/sanngirni.

Staðreyndir:
Fasteignamarkaðurinn er enn botnfrosinn, neysla dregst enn saman, raunskatttekjur og velta samfélagsins hafa dregist saman (6,8% samdráttur 2009). Atvinnuleysi eykst og vel menntað og hæft fólk flytur úr landi (atgerfisflótti). Samdrátturinn er mun meiri en hann þyrfti að vera. Eina ástæðan fyrir því að dregið hefur lítillega úr atvinnuleysi á tímabili er útflutningur vinnuafls (megin útflutningsvara íslendinga nú um stundir að því er virðist).

Spurt er, hvað kostar?
Hagsmunasamtök heimilana spyrja á móti hvað kostar að fara ekki í þær aðgerðir sem samtökin leggja til. Sú spurning er mun mikilvægari og nú höfum við hluta sönnunargagnanna fyrir augunum. Hafa þarf í huga að ásetningur kerfisins er að láta heimilin greiða kostnað af óráðsíu banka og slæmri efnahagsstjórn. Kostnaðurinn er því lántaka fasteignalána að óbreyttu og HH hefur bent á að sá reikningur sé ekki bara óréttlátur heldur einnig óskynsamlegur. Sá reikningur kemur í ýmsum formum margfaldur til baka á ríkissjóð, fjármálafyrirtæki og samfélagið allt. Við höfum nú aðeins séð rétt í toppinn á þeim borgunarísjaka (gæti farið yfir 1.000 mja, þ.a. 500 mja. færsla eigna frá heimilum til fjármálastofnana til að bæta þeim eigin afglöp samkvæmt grein Agnars Jón Ágústssonar, 73.000 heimili eignalaus 2011).

Kr. 12 til 16 milljarðar á ári er allt og sumt

Almenningur er hvað eftir annað hræddur með óskiljanlega háum grilljörðum og trilljörðum. Setjum tölurnar nú í vitrænt samhengi. Í séráliti fulltrúa HH í svonefndum sérfræðingahóp forsætisráðherra, er gefið dæmi um uppsetningu á afskriftareikning sem mundi bera leiðréttinguna. Við útfærum þetta dæmi Marinós G Njálssonar úr sérálitinu með rauntölum frá sérfræðingahópnum.

Gefum okkur að tillögur HH séu virkjaðar óbreyttar með afskriftareikning til 25 ára með 5% vöxtum að þá lítur dæmið svona út í þús. milljóna (takið eftir árlegum greiðslum):

Óbreytt leiðréttingartillaga HH : kr. 182,7 mja (léttir á 72.672 heimilum):

 

Ef hugmynd MGN um þak á leiðréttingu út frá tekjum er notuð: kr. 139,6 mja (léttir á ca. 54.000 heimilum):

Sé þetta reiknað samkvæmt tillögu MGN með tekju og/eða eignatengingu (þeir sem eiga miklar nettó eignir og eru tekjuháir í einu eða öðru formi fengju minni leiðréttingu og margir enga þ.e. þeir sem eru með húsnæðislán upp á punt eins og MGN orðaði það). Útkoman er þá svona:

Þetta væru sem sagt ekki nema rúmir kr. 12 mja árið 2011 þ.e. en því væri hægt að skipta milli aðila hrunsins. Á móti þessum greiðslum inn á afskriftareikning koma betri almennar innheimtur, afþýðing fasteignamarkaðar, meiri velta og þar með skattar í ríkiskassann, meiri framleiðni, lækkun vaxtabóta, minna atvinnuleysi, færri gjaldþrota heimili, viðsnúningur brottflutnings, meiri kaupmáttur, hækkun greiðslna í lífeyrissjóði og heilbrigðari viðskipti við bankana. Aðrar afurðir væru öryggi, stöðugleiki, bjartsýni og betri almenn heilsa heimilanna, minna álag en ella á heilbrigðiskerfið auk meðbyrs til stjórnvalda. Ríkissjóður fengi myndarlegann tekjuauka á sama tíma en það mundi auðvelda honum að hjálpa t.d. Seðlabankanum og Sparisjóðunum að takast á við þeirra hlið málsins.

Verða heimilin með í endurreisninni?
Með lækkun höfuðstóls fasteignalána er markmiðið að heimilin nái fótfestu með hvað þau skulda og að dragi úr yfirveðsetningu. Yfirveðsetning og óvissa með framtíðina eru helstu ástæður þess að fasteignamarkaðurinn er dauður. Væntanlegir kaupendur halda að sér höndum því þeir hafa trú á að verð fasteigna hafi ekki náð botni. Framboð á lánsfé og vaxtastig hafa þarna einnig nokkur áhrif. Megin veltan á fasteignamarkaði almennt er fólk sem er að stækka við sig, minnka við sig eða færa sig um set á einhvern hátt. Að óbreyttu er útlit fyrir að lánveitendur fasteignalána yfirtaki mikið af eignum á næstu árum. Eignirnar fara væntanlega á markað og setja aukin þunga á fasteignaverð niðurávið. Þetta er ekki alslæmt fyrir þá sem eiga ekki fasteignir fyrir, svo framarlega sem þeir eiga fyrir útborgun, hafa lánstraust og vinnu og eru tilbúnir að greiða þá vexti sem eru í boði. Þeim fækkar þó óðum í yfirstandandi samdrætti.

Hver er ávinningurinn?
Meiri ráðstöfunarfé heimilanna gerir margt fyrir marga. Sem dæmi væru fleiri sem hefðu efni á að vera áskrifendur að ritum eins og DV. Auglýsingakakan stækkar sem hefur einnig góð áhrif á fjölmiðla sem treysta á auglýsingatekjur. Hagfræðingar hafa fært rök fyrir því að aukinn kaupmáttur í lægri tekjuenda millistéttarinnar hefur jákvæðust áhrif á eftirspurn í hagkerfinu. Hagkerfið þarf á meiri veltu að halda, sérstaklega í þjónustugreinunum. Leiða má getur að því að þjónustugreinarnar séu komnar töluvert undir eðlilegt jafnvægisástand vegna stöðugs samdráttar í eftirspurn. Vísbendingar um þetta má finna í hagtölum Hagstofunnar um gjaldþrot í þessum greinum.

Hvernig sem menn skipta árlegum endurgreiðslum 12 til 16 milljarða stökkbreytts hluta íbúðalána á milli ríkissjóðs, banka og lífeyrissjóða er alveg ljóst að heimilin geta ekki greitt þennan reikning nema með sambærilegum samdrætti veltu og eftirspurnar í hagkerfinu. Ráðamenn þurfa aðeins að líta á hagtölur síðustu tveggja ára til að sjá hvaða áhrif það hefur að fjármálastofnanir sogi til sín allt fjármagn. Menn gleyma því stundum að gjaldmiðillinn er til þess upp fundinn að láta verðmæti og verðmætasköpun flæða í hagkerfinu. Ekki ósvipað og blóðið hefur það hlutverk að láta orku og næringu flæða um líkamann. Hefti menn flæði fjármuna eða safna þeim of mikið eða þynna út dregur úr flutning næringar frá líffærum til vöðva, heila og vefja samfélagsins og þar með getu þess til að láta til sín taka.

Mikilvægi réttlætis
Hornsteinn tillagna HH er um réttlæti. Lántökum finnst afar óréttlátt að vera ætlað að bæta einir upp geigvænlegt aulatap lífeyrissjóða svo ekki sé minnst á fjármögnun eigin fés kennitöluflakkandi banka. Tillögurnar leggja út frá sameiginlegri ábyrgð þ.e. af um 30% hækkun verðbóta verði rétt rúmum helming skilað til heimilanna. Lagt er til að fórnarlömb stökkbreyttra íbúðalána (lögheimila) sitji við sama borð með því að taka stöðuna 1. janúar 2008 og reikna lánin frá þeim degi með 4% þaki á verðbætur en gengisbundnu lánin verði einnig með verðbótum og þaki frá þeim degi. Verðbólga er nú vel undir 4% og því engar fjármálastofnanir að tapa neinu af því þaki á næstu árum á meðan fjármálakerfið heldur sér á mottunni í útlánum (fylgni óhóflegra útlána og verðbólgu er margreynd bæði hérlendis og annarstaðar).

Án réttlætis verða lántakar um langa framtíð í mótþróa við allt sem bankar, lífeyrissjóðir og ríkisstjórn leggja til. Sárindin yfir óréttlætinu éta okkur að innan, við viljum síður leggja okkur fram, við verðum veikari, við látum í besta falli draga okkur áfram eða leggjumst í andóf. Við flytjum úr landi, við vantreystum samborgurum okkar, mörg okkar verða óvirk. Tilfinningin er lamandi tilfinning um tilgangsleysi. Tilfinningin er sambærileg við afleiðingar innbrots og þjófnaðar en það sem verra er að þjófarnir ætlast til að þú vinnir í tugi ára upp í það sem þeir náðu ekki í fyrstu umferð. Skuldaþrældómur. Hversu margir munu kjósa frelsið með einum eða öðrum hætti vitum við ekki. Þó má reikna með að ofangreindar tilfinningar leiði til minni virðingar, glæpa og almennrar hnignunar samfélagsins. Kostnaður okkar allra af þeim völdum er ómælanlegur. Réttlæti er samfélaginu afar dýrmætt.

Hagsmunasamtök lýðskrumara?
Fréttastjóri DV skrifar gildishlaðna grein 26. nóv. sl. og upplýsir lesendur um afstöðu sína til tillagna Hagsmunasamtaka heimilanna. Afstaða hans er áþekk þeirra sem hafa lagt sig fram um að verja málstað fjármálafyrirtækja og stefnu stjórnvalda. Hvergi í greininni er efast um réttmæti krafna fjármálastofnananna. Fullyrðingar eru settar fram en ekki alltaf rökstuddar. Sumt er hreinlega rangt. T.d. er fullyrt að samtökin hafi sett fram aðrar tölur en gefnar hafa verið út af opinberum aðilum. Hið rétta er að HH hefur stuðst við töluleg gögn frá AGS, FME, Seðlabankanum, Hagstofunni, lífeyrissjóðum og bönkunum. HH hefur einnig bent á ósamræmi í ýmsum tölum, sérstaklega frá SÍ og FME. Þau tölulegu gögn sem koma fram í þessari grein koma m.a. frá gögnum sérfræðingahópsins og opinberum tölum. Nú síðast kom út skýrsla Hagstofunnar um stöðu heimilanna. Þar kemur fram að staðan er næst því sem við höfum haldið fram en það byggjum við m.a. á könnunum okkar frá 2009 sem hafa reynst lýsa ástandinu býsna vel ef þær eru bornar saman við gögnin frá Hagstofunni. Kannanirnar má finna á heimasíðu samtakanna ásamt vísunum í önnur gögn og greinar.

Hagsmunasamtök heimilanna hvetja DV til að birta og fjalla um skýrslu sérfræðihóps forsætisráðherra og markmið hans og einnig sérálit fulltrúa HH. Slík frjáls og óháð umfjöllun getur vonandi kastað ljósi á málefnið fyrir bæði fréttamenn DV og almenning.

Skjaldborgin
Allt tal um aðstoð við þá verst settu hefur verði afsökun fyrir að gera helst ekkert. Það eina sem gert er fyrir þá “verst settu” er að þeir eru leiddir í gegn um eignahreinsun og síðan skammtað skít úr hnefa í tvö til þrjú ár. Kröfum fjármálafyrirtækja hefur verið svarað umsvifalaust með lagasetningu og öðrum aðgerðum þeim í hag. Seðlabankinn og FME eru eins og gæsamömmur með ungahóp einkarekinna fjármálafyrirtækja. Í stað þess að veita þessum fyrirtækjum aðhald eru þau vernduð með umönnun sem óvitar væru.

Forsætisráðherra hefur nefnt Hagsmunasamök heimilanna á nafn í viðtölum, nú síðast í viðtali við Stöð tvö daginn eftir að skýrsla sérfræðingahóps var birt. Forsætisráðherra hrósar samtökunum og nefnir að áhugi sé á áframhaldandi samvinnu við samtökin. Ekkert alvöru samráð hefur verið haft við samtökin þrátt fyrir eindregna ósk stjórnar HH þess efnis, nú síðast með bréfi frá formanni stjórnar til forsætisráðherra 16. nóvember sl. (sjá heimasíðu HH www.heimilin.is).

Kjarni málsins varðandi kostnað
Eins og áður segir þyrftu fjármálastofnanir að gefa eftir árlega 12 til 16 milljarða í heild í nokkur ár og síðar lækka þessar árlegu afskriftir. HH hefur jafnvel gert ráð fyrir vöxtum inn í þessum tölum. Mönnum er tíðrætt um að einhver þurfi að borga. Spurt er hver á að borga? Borga hvað? Ránsfeng markaðsmisnotkunar og fjársvikastarfsemi? Eiga fórnarlömb slíks að greiða gerendunum? Halda menn að með því að skipta um kennitölu á bönkunum séu syndir þeirra fyrirgefnar? Með því að rétta nýjum eigendum pappírana sé enginn glæpur til lengur? Sannleikurinn er sá að tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna eru ofur sanngjarnar og halla töluvert á heimilin ef eitthvað er. Óbreytt stefna mun skaða heimilin og samfélagið í heild. Atvinnulífið þarf á eftirspurn heimilanna að halda og heimilin byggja velferð sína og öryggi á öflugu atvinnulífi, ábyrgri fjármálastarfsemi og áreiðanlegri opinberri þjónustu. Ætli menn að endurreisa traust og trú heimilanna á framtíðina þurfa þeir að skoða tillögur samtakanna af alvöru án undanbragða.

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna


Umskurn??????????

Þetta hlýtur að vera grín. Ég trúi ekki að starfandi blaðamaður viti ekki betur eða sé ekki betur máli farin. Umskurður heitir það en ekki umskurn. Ég á ekki til krónu með gati. Ég endurtek, þetta hlýtur að vera grín. 
mbl.is Barn umskorið fyrir misskilning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg hegðun fjölmiðla

Ég get ekki að því gert að mér finnst undarlegt hvernig hver maðurinn á fætur öðrum er tekinn af lífi opinberlega um leið og hann er ráðinn til eða gefur sig í að vinna fyrir almenning í skuldamálum. Ég tek sem dæmi Björn Þorra Viktorson lögmann HH sem hefur unnið mikið og gott starf fyrir skuldara í þessu landi. Er ekki nóg að þessir menn standi undir væntingum í sínum störfum? Verða þeir að ganga með geislabaug? Ekki eru þessir sömu fjölmiðlar að tæta t.d. Birnu Glitnisdrottningu í sig þangað til að hún segir af sér eða er rekin þrátt fyrir að hún gerði upp á bak í persónulegum hagsmunum í viðskiptum við bankann sem hún stýrði. 

Er skýringuna að finna í því að auglýsingadeildir fjölmiðlanna stýra fréttastofunum? Glitnir auglýsir jú mun meira í fjölmiðlum en umboðsmaður skuldara...... 


mbl.is Umboðsmaður skuldara hættur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta getur nú ekki skipt máli...

... fyrir hana, svona tittlingaskítur. Reynslan segir okkur að hún tæki ekki einu sinni eftir því hvort þetta kæmi inn á reikninginn hennar eða ekki.
mbl.is Birna með 12,5 milljóna kröfu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannorð mannsins snýst um annað

En siðblindan felst í því að sjá ekki sekt sína eða viðurkenna hana ekki. Það að hann fór á staðinn sem hátt settur starfsmaður KSÍ og notaði kort sambandsins til að svala fýsnum sínum er brottrekstrarsök í þessari stöðu.
mbl.is Telur mannorð sitt hafa verið hreinsað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er að gerast fyrir ofan Ártúnsbrekku?

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort Reykvíkingar gera sér grein fyrir hvað landsbyggðin, sem sumir hreinlega líta á sem bagga á samfélaginu, er að skila í þjóðarbúið í formi gjaldeyris og skatta. Ef ég tek nokkur nærtæk dæmi þá er skapar sjávarútvegurinn meiri gjaldeyri en nokkur önnur atvinnugrein. Það sem af er þessu ári eru þetta tölurnar samkv. Hagstofu Íslands og annað sætið vermir álið en þetta er væntanlega brúttótala og þá er eftir að kaupa álið til landsins. Upphæðir í milljörðum króna.

Sjávarafurðir

42.645,5
Afurðir orkufreks iðnaðar37.757,5
Það er ekki stór hluti af sjávarafurðavinnslu og veiðum sem fram fer í RVK eða um 26%.

 2008
Alls
Brúttótonn 
Höfuðborgarsvæði32.980
 

2008
Alls
Brúttótonn 
Suðurnes14.869
Vesturland19.755
Vestfirðir10.879
Norðurland vestra  7.721
Norðurland eystra28.040
Austurland22.299
Suðurland23.083
Alls126.646

Heimild: Hagstofa Íslands 

Skyldi engan undra þó að landsbyggðin sendi hörð mótmæli frá hverju byggðalaginu á fætur öðru. Innköllun aflaheimilda er svo mikil aðför að landsbyggðinni að annað eins hefur ekki gerst. Ef leigja á síðan kvótann aftur þá er bara verið að bæta einum landsbyggðarskattinum enn ofan á allt sem fyrir er. Þ.e.a.s ef kóngarnir í borg óttans sitja ekki einir að því að fá úthlutað. Ég get nefnt þungaskatt af flutningabílum sem dæmi og nú eru íbúar á landsbyggðinni að fara að eyða næstu áratugum í að greiða niður fjármálasukkið sem háhýsakarlarnir í támjóu skónum hafa stundað undanfarin ár. Ég set þetta svona upp vegna þess að þetta fólk sem stundar alvöru gjaldeyrisöflun með veiðum og fullvinnslu sjávarafurða gekk í gegn um undanfarin ár án nokkurs sem hét góðæri. Nú situr þetta fólk uppi með skattahækkanir og verðbólgu, minnkandi kaupmátt auk vöruskorts og minnkandi atvinnu.

Gera Reykvíkingar sér grein fyrir því hversu mörg afleiðu og úrvinnslustörf sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn skaffar í Rvk. Kjötvinnslur eru þar í tugum, stór hluti úrvinnslu mjólkurafurða fer fram í Rvk, frystigeymslur fyrir útflutningsafurðir fiskiðnaðarins, útskipun allra afurða, innflutningur og dreifing aðfanga fyrir landbúnaðinn og fiskiðnaðinn.

Ég veit ekki af hverju ég fór að velta þessu fyrir mér nema ef vær í framhaldi af því þegar Steingrímur var að lesa fréttamönnum á RÚV pistilinn um daginn og spurði þau hvort þau vissu eitthvað hvað gerðist fyrir ofan Ártúnsbrekku.


mbl.is SF leggst gegn hugmyndum um fyrningarleið í sjávarútvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægasta mál í heimi ....

.... fyrir okku íslendinga er að allar aðgerðir og breytingar á fiskveiðistjórnunarlögum takist vel. Ef fyrningarleiðin verður farin refsum við sjómönnunum okkar og verðlaunum þá sem selt hafa kvótann og stungið peningunum sem við sem þjóð áttum að fá í eigin vasa.

Svo ég útskíri málið aðeins þá meina ég það að ef við setjum svo kvótann í almenna leigu standa þeir með pálmann í höndunum sem eiga skipin sín ennþá og eru með fullar hendur fjár eftir kvótasölu. Þeir standa þ.a.l. ekki jafnfætis þeim sem nú starfa við að draga björg í þjóðarbúið og taka á kvótann af endurgjaldslaust. Vegna fjárhagslegra yfirburða kvótasalanna geta þeir borgað hærra verð fyrir aflann. Þetta væri einhver ósangjarnasta aðför sem um getur í sögu þjóðarinnar.

Í mínum huga eru kvótagreifar ekki þeir sem fá úthlutað veiðiheimildum og veiða hvern einasta titt sem þeir meiga veiða, heldur þeir sem leigja frá sér heimildirnar (veiðiskylda í dag er ekki nema 50%, rest mátt þú leigja frá útgerðinni en færð samt sömu úthlutun næst) og ekki síður þeir sem selt hafa kvótann og lifa í vellystingum. Margir af þessum mönnum hugsa sér nú gott til glóðarinnar að komast aftur að veiðiheimildum.

Ganga Jóhanna og Steingrímur erinda þessara manna?

Lausnin er einföld á þessum vanda. Við setjum á 100% veiðiskyldu og þannig kemst enginn upp með að veiða ekki það sem hann fær úthlutað. Ef þú getur ekki eða hreinlega nennir ekki að róa þá skilar þú inn þínum heimildum og þjóðin fær síðan ágóðan af því að leigja eða selja þann kvóta, eftir því hvort þú skilaðir inn heimildunum fyrir fullt og allt eða tímabundið.

Ég ítreka að í hagræðingarskini verður að vera hægt að skipta á veiðiheimildum á milli útgerða. Þar verður að vera um hrein vöruskipti að ræða og meiga peningar hvergi koma þar nærri.             


mbl.is Innköllun veiðiheimilda hefjist 2010
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Magnús Vignir Árnason

Höfundur

Magnús Vignir Árnason
Magnús Vignir Árnason
áhugamaður um réttlæti og að þjóðin átti sig á því að sígandi lukka er best.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband