Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

GANGA ÞJÓFAR LAUSIR MEÐAL ALMENNINGS ?

 

  Þegar einhver hagnast óhóflega þá tapar einhver annar, það er bara svoleiðis.  Peningar vaxa ekki á trjánum.  Hagnaður rekstraraðila er nauðsyn en hann verður að vera í hófi.  Samvisku manna gagnvart því hvort einhver situr eftir með sárt ennið eftir viðkipti er ábótavant.  Ef frumskógarlögmálið á alltaf að gilda, í viðskiptum og samskiptum er spurning hver þroskamunurinn er á manni og apa.

 

  Ég man eftir sem ungur maður, frásögn í fréttum af manni sem var settur í steininn fyrir  að lána mönnum fé á "okurvöxtum,, eins og kallað var í fréttinni.  Í minningunni er þetta afskaplega vondur maður.  Í minningunni er þessi maður að lána fólki fé sem ekki gat fengið fé annars staðar.   Hann nýtti sér neyð fólks.   Fólks sem fékk NEI hjá bankastjóranum, sem í minningunni er maður sem stjórnaði örlögum fólks eftir eigin geðþótta, sem lánaði eftir því hvernig lá á honum þann daginn en ekki maður sem gekk á eftir þér með grasið í skónum, eins og nú tíðkast.  Stjórnvöld tóku á málinu og líka á manninum.  Ef minnið svíkur mig ekki rukkaði skepnan 20% vexti.  Þegar fanturinn var stöðvaður, var þá verið að vernda lántakendurna sem var fólk að reyna að bjarga sér og sínu eða var verið að vernda bankana eins og gert er þessa dagana?  Ég átta mig ekki á því enda kannski erfitt að ímynda sér hvort yfirvaldið var að hjálpa einstaklingi í neyð, sem í fávisku sinni leitaði á náðir glæpamanns eða stofnuninni sem bauð í laxveiði oft á hverju sumri.  Það hlýtur að hafa verið einstaklingurinn því annað væri spilling.  Samkvæmt alþjóðlegri skoðanakönnun er engin spilling á Íslandi.  Allavega með því allra minnsta sem gerist.  Eða erum við kannski bara best af því að allir hinir eru verri?  Það skiptir ekki máli.  Við erum best í spillingarleysi eins og öðru og það er það sem telur.

  davíð oddsson, dómarapabbi, hægri verndarvængur Íslensku bankanna og geir h. haarde hinn hægri verndarvængur þeirra með árna matthiesen í skítverkunum, eru menn sem eru starfi sínu vaxnir.  Þeir tryggja það leynt og ljóst að bankarnir á Íslandi hafi að lágmarki verðtryggða okurvexti í tekjur hérlendis.  Svo hafa þeir óverðtryggða lágmarksvexti í gjöld erlendis þar sem vísitöluundrið þekkist ekki og í allflestum löndum í kingum okkur er ekki einu sinni til orð yfir fyrirbærið.  Þessir menn eru að mínu áliti búnir að missa réttinn til að skrifa nafnið sitt með stórum staf.    

  Landsbankinn komst í fjölmiðla í vetur sem leið, fyrir framúrskarandi sparisjóðsbækur í Bretlandi sem gáfu meiri vexti en gengur og gerist í þarlendum bönkum.  Það fær mann til að velta fyrir sér af hverju Íslenskur banki getur boðið hærri innlánsvexti á bretlandsmarkaði en þarlendir rótgrónir bankar geta gert?  Svarið er einfalt.  Þeir hafa Íslendinga til að endurlána féð og þar er ekkert mál að rukka væna summu fyrir lánsfé bæði til fyrirtækja sem enginn skilur hvernig geta staðið undi pakkanum og til kúgaðra einstaklinga sem ekkert þora að gera eða segja í málinu því þá kemur björn bjarnason skítverkamaður nr.2 með sérsveitina sem hann er að koma sér upp leynilega.  Við skulum ekki gera lítið úr því.  Það heyrist varla í vörubílstjórum lengur.  Við getum óáreitt haldið leiðar okkar fyrir þeim, þökk sé birni bjarnasyni.  Það ættu allar þjóðir að eiga a.m.k. einn björn bjarnason til að vernda almúgann fyrir fámennum sérhagsmunahópum eins og þessum óþolandi vörubílstjórapöddum sem eru að eyðileggja alla þjóðvegi landsins, við að keyra í húsgrunnana okkar möl, flytja matvörur í okkur landsbyggðarandstyggðirnar og ferðast með búslóðir einhvers óþarfa pakks til Reykjavíkur sem er búið að gefast upp á hokrinu úti á landi.  Var einhver að tala um bananalýðveldi?

  Bankastofnanir á Íslandi eru einstakar að því leiti að aularnir sem reka fyrirbærin þurfa 10-15% vaxtatekjur til að geta rekið þær á meðan bankar í nágrannalöndum okkar þurfa ekki nema 4-6% í vaxtatekjur.  Og það er skriðið svo fyrir þessum fégráðugu undrabörnum að einn daginn fékk einn þeirra fálkaorðu.  Eitt dæmi:  Íslenskur banki tekur lán í jenum og greiðir fyrir það 0,5% vexti við eðlilegar aðstæður.  Svo þegar hann kemur heim með féð og lánar Íslendingum, til að byrja með á minnst 4,15%, og verum með það á hreinu að seðlamokararnir borga enga verðtryggingu (vísitölutryggingu) í Japan vegna þess að hún er ekki til þar.  Á Íslandi geta (og gera) með stuðningi ríkisstjórnarinnar, seðlabankans og fjármálaspekinganna þeirra, bankarnir svo rukkað almúgan um verðtryggingu og það eru ekkert annað en aukatekjur í þessu tilfelli.  Er þá ekki einsýnt að verðbólga er hagur bankanna.  Því meiri verðbólga því meiri tekjur.  Og í framhaldi af því er ljóst að það að kaupa evrur fyrir 500 milljarða sem veldur gengisfalli, sem kemur af stað himinhárri verðbólgu, er ekkert annað en snjall leikur til að auka tekjur bankans.  Þessi börn rýna svo upp í nasirnar hvort á öðru og ákveða að hvort um sig skuli þau hafa árslaun verkamanns mánaðarlega.  Svo vogar skítverkamaður nr. 1 sér að koma fram fyrir alþjóð og halda því fram að þetta klúður sé allt verðfalli á húsnæðismarkaði í U.S.A. að kenna.  Þegar búið er að rústa fjármálamarkaðnum á Íslandi með vitlausum bankarekstri reynslulausra undanrennubangsa sem eru ekki starfi sínu vaxnir, þá á að láta reyna á hvort almenningur á Íslandi er nógu vitlaus til að kaupa þessa útskýringu.  Sami hrokinn og í dómarapabba- málinu.  Enda ekki við öðru að búast af siðblindum manni.      

  Stóru mistökin á Íslandi er verðtrygging.  Hún var eins og flestir vita, upphaflega sett á báðu megin, þ.e. á laun og neysluvörur.  Tekjur og útgjöld almennings voru verðtryggðar.    Þá stóð nokkurn veginn heima að allt varð vitlaust.  Verðbólgan rauk upp úr öllu valdi og ekki réðist neitt við neitt þar til að þjóðarsáttarsamningar voru gerðir.  Áður höfðu   stjórnvöld eitthvað misreiknað dæmið og fellt niður verðtryggingu en bara af launum fólks, ekki af  útgjöldum.  Ég held að það hefði átt að vera þver öfugt. Hugsið ykkur bara ef bakarinn hækkar hjá sér kökurnar og brauðin þá hækka launin.  Ég held að hann sem launagreiðandi mundi hugsa sig tvisvar um.  Það hefði orðið til þess að hér væri fjármálakerfi sem hefði hag af því að hér væri lítil sem engin verðbólga, almenningi til hagsbóta en ekki fésjúku fámenninu, en verðbólga er eins og allir vita eitt mesta eitur sem til er inn í öll fjármálakerfi.  Þ.e.a.s. fyrir almenning og fyrirtæki.  Líka fyrir banka ef engin er vísitölutryggingin.  Seðlabanka- undrinu var svo falið að halda niðri verðbólgu með stýrivexti eina að vopni.  Það er nú komið í ljós að gengur ekki upp, samt er þvermóðskast áfram.  Ein stóru mistökin sem voru gerð var að setja húsnæðisverð inn í vísitöluútreikninga sem gerði það að verkum að stýrivaxtahækkun hefur áhrif til aukningar verðbólgu.  Hrikaleg mistök nema þarna sé enn eitt leinivopn sjórnvalda til að gera hag bankanna sem mestan.  Og enginn af þessum mönnum er það stórmenni að viðurkenna mistökin, og leiðrétta almenningi til hagsbóta.  Það er enn ein sönnun þess að þessir menn vinna ekki í vegagerð fyrir almenning heldur fáa útvalda.  

  Þetta sem ég er að segja er samsæriskenning, ekkert annað, en það versta sem út úr henni gæti komið er, að það kæmi einn daginn í ljós að hún væri sönn. 

  Versta við að koma þessum samsæriskenningum á framfæri er það að flestallir fjölmiðlar eru svo háðir þessum féflettururm með auglýsingatekjur, fjármögnun o.þ.h. að illgeranlegt er að fá birta svona kenningu eins og hér er haldið fram.  Undantekningalaust er tekið á bankamönnum, ef þeir leggjast svo lágt að mæta fyrir framan alþjóð, með silkihönskum í fjölmiðlum, fréttamenn læðast í kring um þá eins og köttur í kring um heitan graut og hvísla að bankamanninum "fæ ég betri vexti ef ég set upp silkihanskana,,. Fjármálamenn og samtök þeirra eru meira að segja með sérstakan þátt inni í fréttatímanum til að segja frá hvernig hefur nú gengið þann daginn að féfletta sauðheimskan almúgann.  

  Af hverju er ekki ABC barnahjálp t.d., sem gríðarlega margir íslendingar styðja, með svona fastan þátt til að segja okkur hvað tókst að bjarga mörgum mannslífum eða útvega marga heimsforeldra þann daginn.           

  Þegar fram líða stundir verður þetta tímabil í minningunni eitthvað svipað og minningin um manninn sem nýtti sér neyð fólks, þörf þess á húsnæði eða óbilandi dugnað og þörf til að skapa eitthvað, reka atvinnustarfsemi og skaffa öðrum vinnu.  Gera eitthvað meira en stilla vekjaraklukkuna á 7.  Eini munurinn er sá að þá var það einstaklingur í óþökk stjórnvalda sem stóð að okrinu en í dag bankar undir fiðurlausum verndarvæng stjórnvalda.           


Lausnin fundin

 

Ég lofaði því í grein sem er hér á síðunni hjá mér síðan í vetur, og var birt í Mogganum, að stofna landssamtök vaxtagreiðenda til höfuðs bönkunum og þeirra ósanngjarna vaxtaokri sem verndað er af stjórnvöldum og Davíð Oddssyni Seðlabankastjóra.  Hugsið ykkur bara, þegar bankarnir buðu 100% húsnæðisfjármögnun þá varð sprenging í eftirspurn eftir húsnæði og það hækkaði svo í verði að verðbólgan rauk upp og þá fór Davíð að hækka vexti (miðstýring heitir það) til að lækka verðbólguna með ekki mjög góðum árangri.  Svo þegar húsnæðisverð hækkaði þá létu menn endurmeta verðmæti húsa sinna og tóku meira lán vegna þess að myndast hafði svigrúm til hærri veðsetningar.  Og enn jókst verðbólgan og enn hækkuðu stýrivextir.  Opinbera skýringin er þensla vegna mikilla framkvæmda í landinu.  Rétta skýringin er mikið framboð af lánsfé, sem við Íslendingar erum ekki beint vanir í gegnum árin, sem nýeinkavæddir bankarnir notfærðu sér fram í fingurgóma með okri, undir verndarvæng stjórnvalda.  Engin venjuleg stjórnvöld hefðu stutt það að sauðsvartur almúginn væri rúinn inn að skyrtunni þegar menn í góðri trú tóku gylliboðum bankanna, reynandi að koma sér húsnæði yfir höfuðið.  Og við létum blekkjast.  Og látum enn blekkjast.  Hugsið þið ykkur milljarðana sem bankarnir eru búnir að hafa í okurvaxtatekjur, af þessari aðgerð sinni, sem þeir fara svo með erlendis og fjárfesta fyrir.  Og eru slegnir riddarakrossi fyrir.  Hvað krakki sem væri gæti rekið banka með svona tekjuvernd.

  En Geir Haarde og félagar reyna að telja okkur trú um að það sé svo gott hvað bankarnir borga mikinn skatt í ríkissjóð þegar þeir græða svona mikið.  Ég segi að það væri mikið ódýrara fyrir okkur okurvaxtagreiðendur að borga þá upphæð bara sjálf beint í ríkissjóð.

  Ég er með betri hugmynd en að stofna landssamtök vaxtagreiðenda.  Ég fékk hana bara í vikunni sem leið.  Stofnum banka.  Hann skal heita Lýðveldisbanki Íslands.  Nafnið má alveg vera óþjált.  Það verður engin útrás.  Það þarf stóran tryggingasjóð til að stofna banka.  Við okurvaxtagreiðendur sláum saman í púkk og leggjum sjóðinn inn á bók hjá einhvejum bankanum og fáum rentur af honum. Eða hvort sjóðurinn á að vera í vörslu Seðlabankans.  Ég þarf að kynna mér þau aukaatriði betur.  Svo sendum við samningamann til Japans og tökum erlent lán á 0,5% vöxtum, endurlánum öllum sem vilja vera með á 3-4% vötum og takið eftir, "ÞAÐ VERÐUR ENGIN VERÐTRYGGING".  Þetta heitir samvinnuhugsjón eða framsóknarmennska, mér er sama hvort þið kallið það.  Bankinn verður rekinn með lágmarkshagnaði.  Að þessu takmarki ætla ég að vinna og eru allir sjálfboðaliðar velkomnir að aðstoða og leggja í púkkið bæði vinnuframlög og hugmyndir.  Vonandi er hótunin nóg til að okrararnir vakni og snúi af þessari braut og ríkisstjórnin leggi niður verðtrygginguna, þó að það sé trúlega mikil bjartsýni. 

  Ég neita að trúa því að það þurfi að bíða eftir einhverjum sérstökum aðstæðum til að hægt sé að leggja niður verðtrygginguna.  Það þarf að vinna í að skapa þessar aðstæður.  Og  ég get ekki heyrt að ný ríkisstjórn sé að fara að breyta þessu miðað við hvernig Ingibjörg Sólrún talaði fyrir kosningar, sami tónninn, "ekki réttar aðstæður núna til að fella niður verðtrygginguna".

  Það liggur við að ég sjái eftir því að hafa kosið Samfylkinguna.  

 

  Ég hef talað.   


Snjallt ef satt er

Heyrði þá kenningu að auglýsingar Jóhannesar í Bónus hafi verið hugsaðar til að auka fylgi flokksins.  Það er að segja að hann hafi hvatt til yfirstrikana og þá hafi stuðningsmenn Jóhannesar skundað á kjörstað til að strika yfir Björn og kosið Sjálfstæðisflokkinn í leiðinni til að yfirstrikunin virkaði.  Merkilegt ef satt er og jafnvel þó það sé logið.  Jóhannes er jú yfirlýstur sjálfstæðismaður.

Kosningar

Ágætar umræður leiðtoganna í kvöld en alltaf jafn einmanalegt að sjá Ingibjörgu innan um karlana.  Spurning hvort Samfó er svona mikið framar en hinir flokkarnir hvað jafnrétti kynjanna varðar.  En annars ekkert nýtt sem kom fram í spjallinu, allavega ekkert sem hjálpaði mér að ákveða mig.  Ég var til dæmis mjög svekktur að enginn leiðtoganna mynntist á verðtrygginguna þegar þeir töldu upp stjórnarmyndunarskilmálana.  Og ennþá vonsviknari var ég þegar að Ingibjörg var spurð um þetta málefni.  Svarið var svipað og hefur verið hjá Geir og Jóni, ekki tímabært, ekki réttar aðstæður.  Þetta kaupi ég ekki án nánari útskýringa. Þetta er hægt ef unnið er í málinu, ekki bara beðið eftir einhverjum ýmynduðum aðstæðum, sem koma svo kannski aldrei.

En fyrir þá sem eru óákveðnir er rétt að reyna www.xhvad.bifrost.is

Ég hafð gaman af því í dag þegar einn félagi minn sem er svart íhald tók prófið og kom út sem 60% Samfylkingarmaður.  Viðkomandi óskar gríðarlegrar nafnleyndar. 

Mín atkvæði dreifðust víða en hæst var VG með 37,5% svo Samfó með 32%

   


Mengun

 

Ég lenti í skemmtilegum rökræðum í einu páskaboðinu við góða vini mína um annarsvegar mengun og hinsvegar verðtryggingu, verðbætur og vexti. Mengunarmálin eru okkur öllum ofarlega í huga þessi misserin vegna hverrar svörtu skýrslunnar á fætur annarar um mengun, aðallega andrúmsloftsins.  Þó tel ég mengun sjávar, bergvatns og jarðar almennt ekki vera minna áhyggjuefni.  Vatnið á jörðinni er svo samofið andrúmsloftinu að það hlýtur að bera mikinn skaða af ferð sinni um loftin blá, loftin eru jú ennþá blá, fyrst sem gufa sem við greinum ekki svo vel á uppleið og síðan sem rigning eða snjókoma sem við verðum meira vör við á niðurleið. 

  En vatnið var ekki umræðuefnið heldur andrúmsloftið og hvað einstaklingurinn gæti gert til að minnka mengun.  Þá eru allar brennsluvélarnar sem við erum að nota daglega það eina sem við getum haft svo afgerandi áhrif á.  Okkur stendur til boða að aka um á sparneitnum dieselbílum eða tvinnbílum ef við viljum leggja eitthvað af mörkum.  Mér er alveg sama þó það sé eitthvað óhagkvæmara, það skilar sér í til baka til barnanna okkar.  Og við höfum flest efni á því.  En einn fræðingurinn vogaði sér að skrifa um það fyrir nokkru síðan að bílafloti okkar Íslendinga mengaði svo lítið miðað við alla heimsbyggðina að það skipti engu máli, 0,02% ef ég man rétt.  Þetta er álíka gáfulegt og að ég sem einstaklingur mundi hætta að borga skatta vegna þess að minn hlutur í er svo lítill að hann skipti engu máli.  Og allir ættu bara að vera sáttir við það.  Ég er hálf feginn, eftir mikla eftirsjá undanfarin ár, að vera ekki langskólagenginn ef þetta er það sem út úr því kemur þó að skynsemisstuðullinn ætti að ráða  þarna. 

  Ég er þeirrar skoðunar að stjórnvöld í heiminum öllum geti auðveldlega hraðað þróun og hagkvæmni mengunarlítilla bíla.  Það er svo margt hægt að gera til að verðlauna neytendur fyrir að kaupa og nota þá.  Ég nefni lægri tolla, ókeypis bílastæði og afnumið kílóagjald. Neytendur þurfa líka að gera sér grein fyrir því að þeir geta stjórnaða ferðinni hvað þetta varðar. Það framleiðir jú enginn eiturspúandi bíla ef enginn vill kaupa þá.                   

Hugsið þið aðeins lengra !

Einar sjávarútvegsráðherra skrifar um það í kvöld eftir stjórnmálaumræður í sjónvarpinu, en það er jú ekki hægt að segja álit sitt á hans eigin síðu á greinum hans, að það sé illa ígrunduð peningastefnan hjá stjórnarandstöðunni en ég vil svara því svona.  Til stendur að lækka verðbólguna í landinu en það er svolítið sem er ekki til í ykkar orðabók því þá mundu vinir ykkar í bönkunum græða minna og borga þá væntanlega minna í kosningasjóðinn.  Ég fyrir mitt leiti er tilbúinn að borga helminginn af því sem ég borga í verðbætur af mínum lánum í sameiginlegan sjóð okkar landsmanna, ríkiskassann, ef ég fæ að hirða hinn helminginn sjálfur.  Ef allir gerðu þetta yrðu tekjur ríkissjóðs svo miklar að þið munduð ekkert vita hvað þið ættuð að gera við alla peningana  

Um bloggið

Magnús Vignir Árnason

Höfundur

Magnús Vignir Árnason
Magnús Vignir Árnason
áhugamaður um réttlæti og að þjóðin átti sig á því að sígandi lukka er best.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 16172

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband