Færsluflokkur: Bloggar

Matvælaverð

  Ég var að lesa grein eftir einn snillinginn enn á bloggsíðu moggans, um matvælaverð á Íslandi samanborið við hin norðurlöndin.  Sá kappi vildi hætta kjúklingaframleiðslu og flytja inn allt kjúklingakjöt. Ég get ekki að því gert að mér finnst þetta grunnhyggni mikil.  Kjúklingaframleiðslu á okkar landi er í dag þannig háttað að hún er á fárra höndum. Og þessir fáu framleiðendur eru sammála um að reka sín bú með hagnaði.  Öðruvísi gengur málið ekki upp.  Uppkaup hafa átt sér stað af hendi stóru búanna á þeim minni bæði í kjúklinga og svínarækt, með tilheyrandi verðhækkunum í kjölfarið.  En ástæðan er margþættari en svo fyrir háu verði á kjúklingakjöti.  Hvað með fóðurkostnað?  Hvað með vaxtakostnað?  Hvað með kostnað eftir ítrekuð gjaldþrot búanna, eftir verðstríð undanfarinna ára.  Neytandinn borgar þetta allt á endanum í formi skatta, vaxta eða hærri álagningar.  Alveg sama hvað við berjum hausnum við steininn.  En að ætla að leggja niður framleiðsluna hefur alltaf verið í mínum huga heimskuhjal, alveg síðan Jónas Kristjánsson byrjaði að tala um kennaratékkinn til bænda hér á árum áður.  Það er staðreynd að hvert einasta bú á landinu skaffar fjölda manns vinnu þannig að kennaratékkarnir ykkar sem svona hugsið væru orðnir að ávísanaheftum í kassavís áður en við væri litið.  Ef við hættum matvælaframleiðslu á Íslandi þá erum við ekki lengur þjóð, við erum ekki neitt. Við værum upp á aðra komin með mat, hugsið ykkur, það væri fyrir mildi annara að við fengjum að borða.  Allt í lagi, það er nóg til af mat og það er bissnes í því að selja okkur mat, ástandið í Evrópu er gott og engar plágur á ferðinni, engin stríð á meðal né á milli þjóða svo heitið geti.  En haldið þið, matvælaframleiðsluandstæðingar, að ástandið verði allataf svoleiðis.  Og haldið þið að ef plága eða stríð brýst út að við hérna á skerinu göngum fyrir með matarsendingar ef einhver matur væri þá til á annað borð og þó að nóg væri til af mat að hægt væri að koma honum til okkar. Eða vegna samgöngubanns út af smithættu að það mætti koma matnum til okkar.  Ef matarskortur verður ætlið þið þá að treysta á móður Teresu.  Ef ég mætti upplýsa ykkur tékkaskrifarana, þá er hún fallin frá.

"Viðkvæmar tekjur sem geta horfið á augabragði,,

Þessi orð féllu hjá Fjármálaráðherranum um daginn þegar rætt var um af hverju fjármagnstekjufólk væri haft í bómullarkörfu hjá þeim stjórnvöldum sem stjórnað hafa Íslensku viðskiptalífi undanfarin ár.  Þessir bómullarhnoðrar sem ríkisstjórnin heldur svo mikið uppá eru sagðir vera um 2200 hausar.  Þeir sleppa við að borga nefskattinn sem settur var á okkur almúgann við stofnun Ríkisútvarpsins ohf.  Og rökin eru þau að við verðum að vera góð við þessi grey því bómullarhnoðrar eru mjög viðkvæmur stofn sem er í útrýmingarhættu.  Svo sleppa þeir líka við að borga gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra.  Hver ætli rökin séu fyrir því.  Verður þetta fólk ekki gamalt.  En eigum við ekki að sleppa hnoðrunum okkar við kirkjugarðsgjaldið líka.  Mér dettur í hug greinin sem var í Mogganum þriðjudaginn 30. jan. 2007. Frábær grein eftir Kristján G. Arngrímsson sem fjallaði um það tvennt sem óumflýanlegt er í þessum heimi þ.e. skattinn og dauðann.  Með þann lit í bakgrunninum á þessari mynd, er það ljóst að Fjármálaráðherrann er búinn að gefa þessum ofvernduðu dúskum okkar, lausn frá sínum kvöðum.  Er þá ekki eins líklegt að Maðurinn með ljáinn geri slíkt hið sama?  Þá er bara sjálfsagt að kirkjugarðsgjaldið falli niður líka ef það væri til þess að létta þessum viðkvæma stofni lífsbaráttuna.  Ég vinn venjulega dagvinnu og hef mín laun fyrir það en hef ekki orðið var við kaupmáttaraukningu þá er stjórn þessa lands hefur vitnað í.  Ef það kemur eitthvað meira í budduna þá fer það jafnharðan í bankana í formi verðbóta.  Ef mér dettur í hug að vinna aukavinnu til að drýgja tekjurnar þá verð ég að borga a.m.k. 37% af þeim í skatt.  Þarf ekki Fjármálaráðherrann að átta sig á því að þarna er útdauður stofn skattgreiðenda?  Horfnar tekjur.  Hvenær ætlar stjórn landsins að átta sig á því að þarna er tekjumöguleiki. Ef ég þyrfti bara að borga 10% skatt af tekjunum mínum, mundi ég vinna aukavinnu öðru hvoru.  Og segja frá því.  Eflaust vinna margir aukavinnu.  En ég er ekki viss um að ráðherrann títtnefndi fái nokkuð um það að vita,  vegna þess hve okrið er svívirðilegt í öllum samskiptum sameiginlega sjóðsins okkar og hinnar vinnandi handar að ekki er hægt að kalla annað en nauðgun. Fjármálastjórnin í þessu landi er öll á kostnað launafólksins, en til tekna þeim sem eyða öllum stundum í að hlaupa á eftir krónum og aurum og láta barnauppeldi og mannasiðakennslu niðja sinna mæta afgangi.  

Stjórn Ríkissjóðs Íslands hefur tekist í gegnum tíðina að fá allan almúgann upp á móti sér með ósanngirni og skepnuskap í öllum samskiptum.  Það er engu líkara en þetta sé gömul hefð frá tímum kotbændanna sem sýslumennirnir okruðu á og lítillækkuðu með yfirgangi sínum og valdníðslu. Í staðinn fyrir að landsmenn eiga að bera hag sjóðsins okkar sameginlega fyrir brjósti er viðhorfið “ helvítis kerfið,,  Ef sanngirni væri beitt í skattheimtu og allir landsmenn sætu við sama borð væri viðhorfið annað og skattsvik almúgans ekki þjóðaríþrótt þar sem verðlaunin eru 37% af innkomunni.


« Fyrri síða

Um bloggið

Magnús Vignir Árnason

Höfundur

Magnús Vignir Árnason
Magnús Vignir Árnason
áhugamaður um réttlæti og að þjóðin átti sig á því að sígandi lukka er best.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 16416

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband