Frjálslyndir með nýtt kosningaloforð

 

Ég hef verið, er og verð talsmaður þess að leggja niður verðtrygginguna á okkar ástkæra skeri.  Annað eins óréttlæti er ekki til á nokkru byggðu bóli.  Því finnum við mest fyrir sem erum að koma okkur þaki yfir höfuðið.  Og ef verðbólgan eykst í landinu þá er mótleikurinn að hækka vexti þannig að flestir eru að kikna undan þunganum á vaxtabyrðinni.  Sem sagt, ef að stjálfstýrðu vextirnir hækka þá hækkar miðstýringarkarlinn í Seðlabankanum handstýrðu vextina til að sjálfstýrðu vextirnir lækki aftur.  Alveg sama þó að það virki ekki þá hækkar hann bara handstýrðu vextina meira. Um svona eins og ½ % á mánuði.  Svo lækka sjálfstýrðu vextirnir einhverra hluta vegna, að því er virðist í réttu hlutfalli við minnkandi útlán bankanna en þeir draga eðlilega saman í útlánum þegar þeir leigja svo og svo mikið af íbúðum sem þeir hafa eignast vegna þess að kaupendurnir gáfust upp á vaxtabyrðinni.  Þessir fyrrverandi 100% lántakendur skulduðu meira en þeir áttu og þess vegna var ódýrast hjá þeim að ganga bara út.  Ekki hjálpaði hækkandi húsnæðisverð þessu fólki við afborganirnar eins og mannvitsbrekkan dharma vill meina að gangi upp.  Ekki varð þetta fólk vart við eignamyndun.  Svo ef að verðbólgan hjaðnar af fyrrgreindum ástæðum ber miðstýringarkarlinn sér sjálfsagt á brjóst og hrósar sér fyrir snilldar stjórnun á eyðslu og bruðli landans.  Það heitir nefnilega ekki miðstýring nema hún komi frá ríkisstjórninni, ef seðlabankastjórinn reynir að hafa áhrif á athafnir almennings heitir það, tja ..... ætli það heiti ekki hagstjórn.  Mikið værum við illa stödd ef við hefðum ekki svona snillinga í brúnni. 

  En nú er væntanlega breyting framundan á þessu og verðtryggingin heyrir sennilega sögunni til ef marka má heilsíðu auglýsingu Frjálslynda flokksins.  Ekki trúi ég öðru en að kjósendur fylkist um þetta fólk sem lofar mestu byltingu í hagstjórn Íslands í manna minnum, stórum meirhluta þjóðarinnar til hagsbóta.  En frekari útlistingar er þörf á framkvæmdinni til að í það minnsta ég kaupi kosningaloforðið.  Það eru milljarðar í svokölluðum krónubréfum í umferð.  Ef ég skil þetta rétt þá eru ríkir menn og stjórnendur alls kyns erlendra sjóða sem kaupa krónubréf vegna þess að þau eru náttúrulega verðtryggð eins og allt annað á þessu skeri, nema launin og þegar að hér er 5-8% verðbólga þá eru það fínir vextir fyrir þessa erlendu kaupendur.  Ef við mundum aflétta verðtryggingunni með einu pennastriki kæmu þessi krónubréf væntanlega til innlausnar öll sama daginn. Hvernig á til dæmis að leysa það?  Frægt var þegar að norski olíusjóðurinn innleysti krónubréf einn daginn fyrir svo háar fjárhæðir að krónan hríðféll.  Og það sauð á Halldóri.  Auðvitað þurfti hann að lenda í þessu ofan á allt annað, sá annars ágæti maður. 

  En ég, og sjálfsagt fleiri, viljum fá að vita hvernig á að framkvæma niðurfellinguna á verðtryggingunni.  Það er ekki spurning að það er hægt, og allt sem þarf er vilji.  Og þó.  Sennilega þarf að kjósa verndara þess kerfis sem við skrimtum nú við, út af þingi eða að minnsta kosti úr stjórnarráðinu.  Verndara verðtryggingarinnar.   Verndara bankanna.  Miðstýringuna í Seðlabankanum.  Burtu með það allt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Magnús Vignir Árnason

Höfundur

Magnús Vignir Árnason
Magnús Vignir Árnason
áhugamaður um réttlæti og að þjóðin átti sig á því að sígandi lukka er best.
Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 16372

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband