Matvælaverð,vextir, verðbætur og samhengið þar á milli.

     Við getum stofnað endalaust nefndir, hef ég á tilfinningunni, til að finna út af hverju matur er svona dýr á Íslandi og alltaf komist að sömu niðurstöðu og hún er  “ráðumst á bændur og gerum frjálsan innflutning á landbúnaðarafurðum til landsins,,      Umræðan um málefnið er af hinu góða og verður að vera á lofti svo eitthvað gerist í þessum málum, en einhæfnin og hugmyndaleysið í umræðunni um þetta mál allt, er hreint með ólíkindum.     Gott og vel, þróunin hjá bændum á okkar landi er undafarin ár á þá leið að búum fækkar og þau stækka sem hlýtur á endanum að leiða til lækkandi verðs vegna aukinnar hagkvæmni í þessum stærri rekstrareiningum. Svo dreifa fóðurfyrirtækin jafn miklu fóðri á færri staði og afurðastöðvarnar safna mjólkinni , kjötinu og öðrum afurðum í jafn miklu magni á færri stöðum.    En hefur engum fréttamanninum dottið í hug að bera saman verð á fóðurbæti til bænda?  Fróðlegt væri ef sá kostnaðarliður sem og túnáburður, en þetta eru einhverjir hæstu útgjaldaliðir búanna, væri borin saman við hin norðurlöndin en ekki bara hlaupin ein ferðin enn út í búð og innkaupakarfan fyllt.   Nú um síðustu áramót tók steininn alveg úr þegar einn af öflugustu féhirðum íslandssögunnar var sæmdur íslensku fálkaorðunni fyrir það að fara með svo og svo mikið af peningunum sem hann var búinn að raka saman á ökrum almennings til útlanda og kaupa banka fyrir þá. Þannig og aðeins þannig gat maðurinn sannað að eitthvað væri í hann spunnið því að á hinum norðurlöndunum geta þeir bara rukkað 3-4% vexti OG ENGA VERÐTRYGGINGU.  Maðurinn á orðuna skilið og enginn annar, fyrir þetta stórkostlega afrek.  Svo flokkast þetta líka undir það sem kallað er útrás og er hæstmóðins í dag auk þess að vera þjóðhagslega hagkvæmt.  Ég held að Ólafur forseti hafi veitt honum orðuna fyrir stórkostlega leikni sem strengjabrúðustjórnandi ársins.  Jón Sigurðsson var, vægt til orða tekið, sannfærandi þegar hann sagði okkur í sumar að nú væri ekki rétti tíminn til að leggja verðtrygginguna  niður og mikilli gleði og ljóma fylltist hjarta mitt þegar ég heyrði Geir Haarde segja okkur hvað bankarnir greiddu mikið í skatta á síðasta ári.  Hvar værum við bara stödd án þessara stórkostlegu banka okkar og stórflinkra stjórnenda þeirra.  En áfram með matvælaverðið, meira um bankana og strengjabrúðurnar þeirra síðar.    Samhengi er þarna á milli  þ.e.a.s. milli bankanna og matvælaverðsins og meira en samhengi.  Kæri fréttamaður, ertu fánlegur til að spyrja næst þegar þú hefur tækifæri til, rétta aðila, og ekki láta þá komast upp með að svara ekki, um samhengi milli hárra vaxta á Íslandi og hás matvælaverðs.  Tökum dæmi.  Kúabú, svínabú, kjúklingabú eða fjárbú sem fylgja áðurnefndri þróun sem felst í stækkun og fækkun búa.
  1. Búið skuldar 100 milljónir eftir dýra uppbyggingu húsa og kvótakaup og bankinn tekur 15% vexti á ári, það  eru 15 milljónir á ári bara í vexti sem fara að sjálfsögðu beint út í matvælaverðið.
  2. Sláturhúsið skuldar líka 100 milljónir vegna þess að síauknar kröfur eru gerðar til hreinlætis og vandaðrar meðhöndlunar matvæla, allt verður að fylgja nýjustu  evrópustöðlum og öðrum álíka tískustraumum þó bragðið sé nú svipað og áður en það hét villilamb. Sláturhúsið borgar líka 15 milljónir í vexti og verðbætur.  Og þar er verið að meðhöndla sama kjötbitann og á búinu í lið 1.
  3. Við skulum fylgja þessum sama kjötbita úr sláturhúsinu í kjötvinnsluna þar sem hann er  hanteraður í alls kyns krásir og álegg og allt hvað heitið hefur. En kjötvinnslan skuldar líka 100 milljónir og borgar þar af leiðandi 15 milljónir í vexti á ári 
  4.  Svo skulum við fara á þann stað sem við þekkjum hvað best af þessari upptalningu.  Við skulum fara út í búð en þessi verslun berst í bökkum eftir verðstríðið sem geysaði hér á síðasta ári, skuldar 100 milljónir og verður að borga 15% í vexti á ársgrundvelli. Kaupmaðurinn hefur enga vasa til að sækja þetta fé í nema hjá sauðheimskum almúganum sem hann kallar í daglegu tali væntanlega viðskiptavini.
Hvað skyldi þetta kosta okkur þegar upp er staðið?  Er ekki þarna sem hundurinn liggur grafinn?  En af hverju erum við svona hrædd við að tala um þetta?  Eða hefur bara engum dottið þetta í hug?  Mér datt þetta ekki í hug, það var Guðmundur í næsta húsi sem spurði Kjartan Ólafsson þingmann okkar sunnlendinga að þessu.  Svarið ætla ég ekki að hafa eftir.          Aftur að bönkunum og verðtryggingunni.  Hvenær er rétti tíminn til að leggja niður verðtrygginguna.  Kannski þegar verðbólgan lækkar eins og gerðist vegna þjóðarátaks á vormánuðum 2006.  Er þá rétti tíminn?  Af hverju?Lánið sem ég tók í október 2004 hefur hlaðið á sig 2,4 milljónum í formi verðbóta.  Er verið að nýta tímann svo að höfuðstóll lánanna verði sem hæstur þegar verðtryggingin er tekin af eða er bara verið að eyða umræðunni eina ferðina enn?  Er kippt í strenginn sem lyftir hökunni svo munnurinn lokist?    Tökum eitt dæmi.  Hvaða réttlæti er í því að ef olíuverðsamráðsríkin minnka framleiðslu til að hækka verð, þá hækkar vísitalan á Íslandi og afborgunin á húsunum okkar sem og höfuðstóllinn hækkar.  Fyrirgefið mér en ég sé ekki og skil ekki samhengið.  En bíddu við, hver fær krónurnar sem ég borga í viðbót í formi hærri verðtryggingar?  Bankarnir.  En hvar komu þeir inn í þessa mynd?  Af hverju?  Hvers vegna?  Hvað kemur bönkunum þetta við?  Ekki er þetta til að hjálpa mér að skilja þessa ótrúlegu samhengisleysu.     Einsýnt er að allt fjármálakerfið á Íslandi er uppbyggt á þann veg að hagur þess er há verðbólga. Verðbætur eru ekkert annað en vextir, ekkert annað.  Bankarnir borga aðeins brot af verðbótunum aftur til baka til sinna viðskiptavina.  Hvernig væri hagkerfið á Íslandi í dag ef það væri hagur þess að hér væri engin verðbólga.  Mundu þá ekki allir bankar, allar lánastofnanir svo og ríkisstjórnin vinna að því markmiði.  Af hverju er þá ekki vísitalan lögð niður núna svo við getum nýtt þessi öfl, sem eru svo vel stæð, í hagkerfinu með í þetta verkefni.  Ég get ekki vorkennt bönkunum þó þeir töpuðu nokkur hundruð milljónum á þessu, ég hef á tilfinningunni að við eigum það inni hjá þeim og vel það.    Getur verið að samhengi sé á milli sölu bankanna, hárra vaxta og lokaðs bókhalds stjórnmálaflokkanna.  Maður spyr sig.  Er íslenska stjórnmálakerfið kannski bara þrælspillt og tekst bara svona vel að fela það.   Ég setti mér ármótaheit, ef ekkert fer að breytast í þessum málum ætla ég að safna liði.  Ég ætla að stofna landssamtök vaxtagreiðenda.  Það verður ekkert félagsgjald.  Takmark samtakanna númer eitt verður að knýja bankana til að leggja niður uppgreiðslugjöld svo einhver samkeppni verði til í þessum geira, svo förum við að tala um vexti og verðbætur.  Þetta er ekki hótun, þetta er loforð.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Magnús Vignir Árnason

Höfundur

Magnús Vignir Árnason
Magnús Vignir Árnason
áhugamaður um réttlæti og að þjóðin átti sig á því að sígandi lukka er best.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 16412

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband